Nýr sjálfvirkur fingrari eykur gæði og tvöfaldar afköst í fingrun

Endurnýjun vélbúnaðar hjá Límtré Vírnet heldur áfram

Nýjasta stóra fjárfestingin er ný fingrunarlína frá Weinig sem mun stórauka möguleika okkar á aukinni framleiðslugetu á límtréi. Fingrari gegnir lykilhlutverki í framleiðslu límtrés; hann sér um að fræsa enda timburfjalanna og líma  þær síðan saman í eina lengju. Þessar lengjur eru síðan límdar saman og  sagaðar niður eftir þörfum hvers límtrésbita fyrir sig. Góð fingrun er því lykilatrið í því að tryggja  bæði styrk og betri nýtingu á timbrinu.

Innmötun á vélinni er skilvirkari en áður.

Nýja vélin sem við höfum sett upp heitir Grecon PowerJoint 8 og er hún innmötuð með búnaði frá Dimter. Með þessum tækjum færist vinnslan upp á nýtt stig sem gerir okkur kleift að hámarka afköst og auka áreiðanleika í framleiðslunni.

Vinnslueiginleikar og möguleikar fingrarans

Skynjarar meta bæði raka og hvort að fjölin snúi rétt.

Nýi fingrarinn er búinn fjölbreyttum tækjabúnaði sem gerir hann að afar öflugri viðbót við verksmiðjuna. Með honum fylgir snertilaus rakamælir frá Brookhuis sem tryggir að aðeins efni með rétta rakastigið fer áfram í framleiðslu, en fjölum sem eru utan marka er sjálfvirkt hent frá. Þetta sparar bæði tíma og tryggir að afurðirnar verða samræmdar og traustar.

Fingrarinn er líka búinn endaskanna frá Luxscan sem greinir enda fjala og sér til þess að þær snúi rétt í bitunum. Eins var ný fullkomin límvél frá Oest  tekin með og skipt yfir í polyurethan einfasa lím með mun styttri hörðnunartíma en áður. Þar sem áður var notast við melamín urea lím með herði, fylgir núna bæði aukið öryggi og einfaldara eftirlit með límingunni. Sjálfvirkur öryggisbúnaður passar að allt sé í lagi og gerir ferlið bæði hraðara og öruggara.

Hraðinn tvöfaldast

Með nýja fingrararanum tvöfaldast framleiðsluhraðinn. Hann nær allt að 8 skeytum á mínútu, óháð stærð fjala. Þetta er algjör bylting miðað við það sem áður var, ekki aðeins í afköstum heldur einnig í sveigjanleika. Þar sem gamli fingrarinn þurfti langan stillitíma milli tegunda – allt að 30–40 mínútur – er nú hægt að skipta á milli í um 90 sekúndum.

Aukin hraði og gæði

Þessi breyting gerir það að verkum að hægt er að vinna fjölbreyttar gerðir límtré án þess að missa dýrmætan tíma í stillingar. Fyrir viðskiptavini okkar þýðir þetta vonandi styttri afhendingartími og meiri sveigjanleika í lausnum. Fyrir verksmiðjuna sjálfa felur það í sér raunverulega tvöföldun á framleiðslugetu, sem er markmið okkar í þessari endurnýjun.

Það sem áður var

Gamli fingrarinn, sem einnig kom frá Dimter, var keyptur árið 1988 og hafði þjónað fyrirtækinu af mikilli trúmennsku í 37 ár. Hann var vandaður og traustur, en eins og gengur með tækjabúnað af þessum aldri voru takmarkanir hans orðnar augljósar.

Gamli fingrarinn hafði svo sannarlega sannað sig en var kominn til ára sinna.

Á góðum degi, með besta timbri og minni þversniðum, náði hann um fjórum skeytum á mínútu. Stillitíminn var langur, hreinsanir á límbúnaði tafsamar og afköstin einfaldlega ekki í takt við þarfir nútímamarkaðarins. Þrátt fyrir það stóð hann sig með mikilli prýði í áratugi – en nýja tæknin gerir okkur kleift að byggja áfram á þeirri arfleifð með margfalt meiri skilvirkni og gæðum.

FréttirFréttir

Written by

kristjan

Published on

24. september, 2025